144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta hafa verið mjög fróðlegar umræður sem hér hafa staðið um þetta ágæta frumvarp sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram til breytinga á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði. Ég held að segja megi að öllum sé ljóst markmið þessa frumvarps. Við erum að freista þess að byggja inn í fjármálamarkaðinn tæki sem eru líkleg til þess að treysta hann og skapa varnir gegn því að menn geti haft í frammi háttsemi sem hugsanlega getur steypt honum aftur, eins og gerðist árið 2008. Í því skyni hefur hæstv. fjármálaráðherra lagt hérna til ýmislegt sem horfir mjög til bóta.

Það var reyndar gaman að hlusta á einn hv. þingmann í gær segja að það væri fróðlegt að sjá Sjálfstæðisflokkinn ganga fram fyrir skjöldu til þess að auka eftirlitstækjum inn í fjármálamarkaðinn. Viðkomandi þingmann verð ég að hryggja með því að það er hugsanlega ekki að eigin frumkvæði Sjálfstæðisflokksins sem það er gert. Frumvarpið hefur tvenns konar aðalmarkmið, annars vegar að byggja varnir inn í fjármálamarkaðinn en hins vegar að hlíta þeim skuldbindingum sem EES-samningurinn leggur okkur á herðar, þannig að til að mynda þegar því var haldið fram í ræðu í gær að það væri frábært af Sjálfstæðisflokknum að taka upp veltutengingu á sektum, vegna þess að það er nýmæli í íslenskum rétti, er það ekki frumkvæði Sjálfstæðisflokksins. Þarna er verið að fara að reglum sem Evrópusambandið hefur sett og við þurfum að taka upp í gegnum EES-samninginn.

Menn hafa í þeim ræðum sem fluttar hafa verið yfir þessu máli bent á að það er einn ljóður, stór, á þessu ágæta frumvarpi, og hann er sá að það vantar inn ákvæði um uppljóstrara. Hv. þm. Jón Þór Ólafsson fór rækilega yfir að það getur verið munur á þeim tilvikum þar sem menn vilja koma á framfæri upplýsingum um ólögmæta háttsemi, sem hugsanlega geta haft í för með sér mjög heilladrjúgar afleiðingar fyrir það samfélag þar sem þær koma fram, og það krefst mismunandi verndar. Það er alveg hárrétt hjá honum. Í sumum tilvikum þegar um er að ræða upplýsingar sem ekki tengjast fjármálamarkaði, t.d. um skaðlega háttsemi ýmiss konar framleiðenda, hv. þm. Ögmundur Jónasson tók hér dæmi af efnaframleiðanda, er það oft þannig að starfsmenn eða einstaklingar sem koma þessu á framfæri þurfa og krefjast nafnleyndar. Í Svíþjóð hef ég lýst kerfi sem er bókstaflega svo sterkt varðandi nafnleynd að það meinar jafnvel hæstv. ráðherrum sænsku ríkisstjórnarinnar að fá upplýsingar um hver það er sem kemur upplýsingunum á framfæri. Það er oft með öðrum hætti innan fjármálastofnana og fjármálafyrirtækja. Þar þurfa menn stundum að koma fram undir nafni. Við höfum nýleg dæmi um það. Gott ef við Íslendingar stöndum ekki í því að fjárfesta í upplýsingum sem urðu til í gegnum leka þar sem viðkomandi stóðu fyrir sínu máli og vörðu það hvers vegna þeir kæmu þessum upplýsingum á framfæri. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Inn í frumvarpið er verið að byggja margvíslegar nýjar varnir sem eiga að koma í veg fyrir að menn taki of stórar áhættur, ýmist af gáleysi eða ásetningi eða í auðgunarskyni. Í grófum dráttum eru þessar nýju varnir ýmiss konar, þær felast t.d. í því að verið er að hækka sektir sem hægt er að leggja á einstaklinga. Í annan stað er stigið það merka skref að veltutengja sektir þannig að lögaðila sem verður uppvís að brotum má sekta um allt að 10% af veltu síðasta árs. Sömuleiðis finnst mér það mjög merkilegt nýmæli að í lögum um gjaldeyrismarkað er lögð til heimild þar sem sekta má lögaðilann um allt að 10% af veltunni, jafnvel þó að enginn einn tiltekinn einstaklingur sem tengist fyrirtækinu verði uppvís að brotinu.

Allir þessi þættir hafa fælingarmátt og koma í veg fyrir það eða draga úr líkum á því að menn, a.m.k. af ásetningi, brjóti þessi lög. En hv. þm. Jón Þór Ólafsson færði mjög sterk rök að því að þegar um er að ræða uppljóstrara sem njóta verndar er það ný vörn, það hefur í för með sér nýjan fælingarmátt.

Í blálokin, herra forseti, vil ég upplýsa það að t.d. breska fjármálaeftirlitið, sem hefur umsjón með ferlum sem eiga að vernda uppljóstrara, fékk árið 2013 hvorki meira né minna en 3 þús. ábendingar um skaðlega og meinta (Forseti hringir.) ólögmæta háttsemi, þannig að þetta skiptir heldur betur máli.