144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held bara áfram með samtal okkar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar frá því áðan. Ef það er á einhverjum forsendum hægt að ná inn einhvers konar ákvæðum varðandi vernd uppljóstrara í þetta frumvarp sem er í rauninni bandormur — er það ekki það sem það er kallað þegar menn taka saman breytingar á mjög mörgum lögum í einu? — og sér í lagi á þann hátt að það byggi á mjög góðu fordæmi eins og hv. þingmaður hefur nefnt frá Bretlandi varðandi fjármálamarkaðinn sérstaklega því að það yrði náttúrlega skotið strax í kaf ef það yrði of víðtækt — ef einhvern tíma er tækifæri að ná þessu inn í lög, þó að það yrði ekki fullkomin vernd fyrir alla uppljóstrara en við værum alla vega farin af stað, þá er tíminn núna í þessari umferð. Mér skilst miðað við verklagið og vinnulagið hérna á þingi að það þurfi að byrja að vinna þetta og koma með breytingartillögu strax til nefndarinnar áður en málið gengur til nefndar eftir 1. umr. Ég geri ráð fyrir að málið fari til efnahags- og viðskiptanefndar.

Hvað telur hv. þingmaður um þetta og gerleika þess að ná einhvers konar ákvæði um vernd uppljóstrara inn núna í þessari umferð, sér í lagi eftir samtöl hans um ýmisleg málefni við hv. formann nefndarinnar, Frosta Sigurjónsson?