144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þessa umræðu undir lok hennar í þinginu af því ég var fjarverandi í gær og hef verið það við umræðu málsins. Verið er að fjalla um viðurlög við brotum á fjármálamarmarkaði og ber að fagna því að þetta frumvarp er komið fram og að menn skuli vera reyna að herða reglur hvað þetta varðar, ekki veitir af. Reynslan segir okkur að sú samfélagstilraun sem gerð var á Íslandi þegar Ísland ætlaði að verða fjármálamiðstöð alheimsins, og stór hluti af því að átti að felast í því að afnema hindranir, minnka lagarammann, auka frelsið, leyfa fjármálastofnunum, bönkum og öðrum að hafa sem frjálslegast umhverfi, varð ansi dýr fyrir okkar íslenska samfélag með tilheyrandi bankahruni og afleiðingum af því. Við sjáum síðan öll þau dómsmál sem hafa sprottið upp í kjölfarið af því hruni þar sem menn hafa rætt hvers vegna hitt og þetta hafi gerst og síðan sótt menn til saka. Oft verður sú saksókn erfið vegna þess að lagaramminn var svo opinn, frjálsræðið var mikið og mönnum var heimilt að gera ýmislegt sem lög ná ekki yfir. Ég held að hægt sé að fullyrða að bæði á Íslandi og í Evrópu hafi menn áttað sig á því að það umhverfi gengur ekki lengur. Það þarf að herða reglurnar og skýra þær. Ég held að enginn Íslendingur vilji fá gamla umhverfið aftur, þótt ótrúlega margt bendi reyndar til þess, burt séð frá akkúrat þessum lögum, að menn sæki í það að fá sama umhverfi aftur, þ.e. möguleikann á því að græða með ýmsum ráðum.

Á þessum tíma voru hvatarnir gríðarlegir, menn voru með öfluga bónusa, viðskiptabónusa. Við vorum annars vegar með viðskiptabankana og hins vegar með verðbréfastarfsemina, allt undir sama hatti. Menn voru að ávaxta sitt, búa til verðmæti fyrir hlutabréf, akkúrat það sem verið er að fjalla um núna fyrir dómstólum, menn gáfu meira að segja einstaklingum kost á því þegar fór að þrengja að bönkunum að skapa sér lausafé, til þess að ná upp verði af hlutabréfum, með því að lána fyrir hlutabréfakaupum, jafnvel með handveði í bréfunum sjálfum. Maður fór nú í gegnum deCode-málið á sínum tíma þar sem allt í einu myndaðist mikil spenna í kringum það að reyna að auka gróðann, bæði voru það einstaklingar og fyrirtæki, með því að kaupa hlutabréf í deCode og menn tóku lán, þegar þeir hreinlega seldu ekki eignir sínar, til að reyna að kaupa sér hlutabréf. Þeir keyptu sér hlutabréf til þess að græða á, fengu lán frá lánastofnunum, þurftu ekki að leggja fram neitt eigið fé og lánið var eingöngu tryggt með handveði í viðkomandi bréfum.

Eftir þá reynslu settu bankarnir sér sjálfir þá reglu að ekki væri heimilt að lána nema sem næmi 10% af andvirði hlutabréfanna. En eftir að þeir voru einkavæddir, afhentir vildarvinum hér upp úr 2002, fór allt í sama gamla farið. Skömmu seinna, þremur, fjórum, fimm árum seinna, var svo farið að lána aftur fyrir kaupum á hlutabréfum með handveði í bréfunum.

Ég gerði mér ekki grein fyrir þessu fyrr en ég mætti á fjölmennan fund þar sem Sparisjóður Mýrasýslu var til umræðu. Var hann kominn í þrot þegar upplýst var á þeim fundi að fjórir eða sex aðilar höfðu fengið lán upp á 1 milljarð til að kaupa stofnfé í sparisjóðnum og lögðu ekkert eigið fé fram. Raunar var það ekki aðeins stofnfé í Sparisjóði Mýrasýslu heldur í fyrirtækjum sem Sparisjóður Mýrasýslu var aðili að, Sparisjóðabankanum og hvað öll þau fyrirtæki hétu. 1 milljarður, engar ábyrgðir, ekkert lagt fram af eigin fé og handveðið var bara stofnféð sjálft, viðkomandi gat skilað því inn og tapaði ekki á viðskiptunum þótt allt færi á hausinn.

Þetta gerist á sama tíma og hringt var í fullorðið fólk og sagt: Ég sé hér að þú átt 10 milljónir á bankabókum, viltu ekki ávaxta þær með því að koma þeim í hlutabréf? Þar var betri ávöxtun, þar var hægt að græða meira og þegar menn voru komnir í vandræði með lausafé, eða réttara sagt til að styrkja eignarstöðu viðkomandi fjármálafyrirtækja, fóru menn í ágenga sölu á þessum hlutabréfum og gengu svo langt að ráða fyrirtæki eða hópa til að hringja í eldri borgara. Það var auðvitað hrikalega dapurlegt árið 2008 að hitta fólk og bankastarfsmenn sem höfðu upplifað það að hafa kannski nokkrum dögum fyrir hrun, í byrjun október 2008, átt þátt í því að jafnvel að setja heilu húsverðin eða einhverjar inneignir, langtímasparnað, yfir í hlutabréfasjóði, en það voru einmitt hlutabréf í bönkum sem áttu að vera besta tryggingin, og tapa því á einni nóttu þegar hrunið varð.

Það er því full ástæða til að setja tryggari lög í kringum þennan markað, efla þær varnir sem við höfum til að hindra að þetta gerist aftur. Ég held að við eigum ekki að vera feimin við að reyna að hafa reglurnar sem skýrastar.

Þetta tengist svo hinum anganum sem er í öðru frumvarpi, þegar menn tala um að stórhækka bónus eða heimila það og telja fulla ástæðu til þess og þörf á því o.s.frv. Maður skilur eiginlega ekki þá umræðu miðað við reynsluna sem við höfum, vegna þess að það voru viðskiptaborðin sem fengu þessa bónusa, þau smituðu að einhverju leyti yfir á bankann í heild, stundum var viðskiptastarfsemin rekin með miklum hagnaði en viðskiptaborðin eða réttara sagt verðbréfaviðskiptin stálu öllum þeim hagnaði frá viðkomandi aðilum.

Bónusarnir voru þess vegna alltaf mjög ósanngjarnir. Þeir voru veittir þeim sem stóðu fyrir stórum sölum á hlutabréfum eða öðrum verðbréfaviðskiptum og fengu menn prósentur jafnvel þótt viðskiptin væru orðin ónýt eftir eitt ár eða fyrr og verðmæti fyrir bankann væri ekkert eða öfugt, neikvætt. Fyrir það fengu menn samt bónusa. Þarna streymdu peningar eftir aðferðum sem maður vill ekki sjá koma aftur, hvorki í íslenskt né erlent bankakerfi. Áhættusæknin var mjög mikil og hér er verið að reyna að sporna gegn því.

Eins og hefur komið ágætlega fram í síðustu ræðum er hugmyndin með frumvarpinu að vera með fælingarmátt og markmiðið með frumvarpinu er að efla úrræði eftirlitsaðila til að reyna að skapa traust á fjármálamarkaðnum. Það er reynt að taka á brotum á markvissan hátt og ætlunin að skapa traustari fjármálamarkað. Allt það hlýtur maður að styðja.

Ein af þeim forsendunum sem hafa verið mikið til umræðu og ég held að menn verði að taka mjög alvarlega í nefndinni er varðandi þá sem segja frá eða ljóstra upp um ákveðna viðskiptahætti í bönkum. Ég man eftir því að þegar við vorum að vinna úr erfiðleikunum eftir bankahrunið að ég heyrði í bankamönnum, m.a. í Lúxemborg, Íslendingum sem þar voru, segja frá því að hluta sem gerðist þar en taka fram að þeir hefðu ekki átt neina möguleika á að koma fram undir nafni vegna þess að ef þeir ljóstruðu upp um bankastarfsemi í landi eins og Lúxemborg væru þeir þar með búnir að skrá sig út úr allri vinnu við bankastarfsemi í viðkomandi landi. Þannig voru reglurnar. Menn áttu um það að velja að gefa upplýsingar vitandi ekki neitt hvernig farið yrði með þær eða til hvers þær gögnuðust, en um leið máttu þeir vita að þeim yrði sagt upp í viðkomandi bönkum og ættu enga mögulega á því að ráða sig í vinnu við fjármálastarfsemi í viðkomandi landi.

Þetta umhverfi gengur náttúrlega engan veginn vegna þess að sama hvar sem er í opinbera kerfinu og í viðskiptum á auðvitað að hvíla sú almenna skylda á borgunum að ef þeir verða vitni að lagabrotum eða svívirðilegum brotum eigi þeir að ljóstra upp um þau, láta vita af þeim. Þær reglur gilda um ýmis ofbeldisbrot, þær gilda um kynferðislega misnotkun, um vanrækslu á börnum o.s.frv. Ef menn sem reka alvöru bankastarfsemi sjá að verið er að misnota valdið verða þeir að eiga tækifæri á að vekja athygli á því og njóta verndar, þannig að þeir gjaldi ekki fyrir það að vekja athygli á lagabrotunum. Að sjálfsögðu er þetta vandmeðfarið og ekki auðvelt að setja reglur sem ná utan um það án þess að það verði hugsanlega að aðför að ákveðnum mönnum, en það verður að gera umgjörðina þannig að þetta hrífi, þetta virki og menn fái tækifæri til þess. Það er það aðhald sem okkur vantar, að ekki sé hægt að gera undirmenn í bankastofnunum ábyrga fyrir því að taka þátt í lögbrotum sem yfirmennirnir hafa sett þá í og þeir geta ekki undir neinum kringumstæðum, í nafni bankaleyndar eða vegna hættunnar á að vera dæmdir, ljóstrað upp um þá starfsemi þar sem brotin eiga sér stað.

Eitt sem mér finnst skipta miklu máli og þarf að fylgja eftir er að Íslendingar taki mjög skarpa afstöðu og berjist með þeim sem vilja banna skattaskjól, sem vilja banna starfsemi í löndum þar sem menn vernda allar persónuupplýsingar, jafnvel þótt um lögbrot sé að ræða, og gera út á það sem þjóðir, lönd eða landshlutar að verja menn gegn yfirvöldum í einhverju öðru landi, að menn geti flúið með peningana sína, komið þeim fyrir, falið þá, komið sér út úr því að taka þátt í samfélagslegum greiðslum í viðkomandi heimalandi. Þetta hefur komið upp aftur og aftur, jafnvel hjá stærstu bönkum sem hafa leiðbeint fólki til þess að komast hjá því að greiða skatt. Það er vaxandi umræða um það í Evrópusambandinu að banna slíkt og verjast því formlega og Ísland á að vera í fararbroddi í því. Það eru hagsmunir almennra borgara, það eru hagsmunir okkar að menn skili sköttum sínum og skyldum til samfélagsins og taki þannig þátt í samneyslunni, en ekki að menn meldi sig út sem sérforréttindahópur sem getur falið sig og tekur engan þátt í rekstri samfélagsins. Þetta er hluti af því sem maður hefði viljað sjá í framhaldi af þeim lögum sem hér eru sett fram.

Í heildina fagnar maður frumvarpinu og vonar að unnið verði vel með það í nefnd. Hér hefur komið fram í ræðunum á undan, í orðaskiptum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar, að þótt skýrari ákvæði um vernd uppljóstrara vanti sé vel hægt að bæta því við á lokasprettinum og tryggja að það komi inn í umfjöllun nefndar, þannig að við styrkjum þessa lagasetningu með þeim ákvæðum. Um leið held ég að mikilvægt væri að í greinargerð eða nefndaráliti kæmi hvatning til íslenskra stjórnvalda um að taka þátt í því átaki að verjast því að menn samþykki hér skattaskjól og að þeir taki upp skipulega og harða baráttu gegn því að menn geti falið peninga í öðrum löndum eða komið þeim undan skatti og geti notið verndar einhvers staðar úti í heimi.

Þetta er það sem ég vildi koma með inn í umræðuna. Þarna er farið eftir ESB-reglum í flestu en ég treysti á að við drögum hvergi af okkur í því að vera framarlega í því að gera lagarammann skýrari þannig að hann nái utan um þessi lögbrot, andstætt því sem reyndist okkur svo skelfilega í þjóðfélagstilrauninni þegar við ætluðum að afnema allar reglur og allt eftirlit og allt átti að vera svo frjálst og markaðurinn að stýra þessu, með þeim hrikalega skelli sem hið íslenska þjóðarbú fékk í hruninu 2008.