144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðuna og eins það, sem ég tel vera lokin á þessari umræðu, að fara yfir og rifja upp söguna og reynslu Íslendinga af því að hafa lítið regluverk um fjármálamarkaði. Ég held að það sé mjög mikilvægt, við megum sem samfélag alls ekki gleyma því að skortur á regluverki varð meðal annars til þess hve illa fór hér. Nú þegar er farið að bera á röddum í samfélaginu sem farnar eru að tala fyrir minna regluverki. Sem betur fer er það frumvarp sem hér er til umræðu í aðra átt þó að fram hafi komið ábendingar um þætti sem betur mættu fara, svo sem að það vanti ákvæði um vernd þeirra sem ljóstra upp um misferli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í hans sýn á það sem kom fram í umræðu eða andsvörum áðan — þ.e. að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að leggja á sektir, en að það sé ekki skylda — að þetta sé of mildilegt orðalag og líklegt að því verði ekki fylgt eftir þannig að þeir sem gerast brotlegir þurfi að greiða sektir og að viðurlögin nái til þeirra. Ég spyr hvort hv. þingmaður telji að hér þyrfti að kveða fastar að orði til þess að tryggja viðurlög.