144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[16:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið. Ég heyri að við deilum þeirri skoðun að regluverkið hafi verið mjög veikt og ekki veiti af að styrkja það. Svarið við spurningu hv. þingmanns verður því í þeim tón að ég held að ýmis heimildarákvæði mættu vera skýrari þannig að beinlínis væri ætlast til að menn gripu til sekta og gerðu það svolítið kröftuglega. Það verður alltaf endalaus umræða um álitamál o.s.frv., og svo finna menn leiðir til þess að koma sér hjá því að sektum sé beitt og fara að hlífa fyrirtækjum eða einstaklingum með þeim rökum.

Það sem kemur alltaf upp í umræðunni um þessi mál eru þessi erfiðu hugtök frelsi og persónuvernd. Frelsi er eitthvað sem við elskum öll og viljum hafa en það er oft misnotað til að gera nánast hvað sem er. Sumir segja að frelsið nái ekki lengra en að nefi þess sem næstur er, þ.e. að menn takmarki ekki frelsi annarra. Í því samhengi hafa menn oft viljað hafa viðskiptafrelsi svo ótæpilegt að nánast sé hægt að gera hvað sem er.

Þegar eitthvað bjátar á beita menn persónuvernd eða bankaleynd til að hindra að það náist til þeirra sem eitthvað hafa brotið af sér langt út yfir það sem verndar hagsmuni almenna notandans, þ.e. almenna viðskiptamannsins, í bankanum. Það er oftast þannig að það eru þessir stóru aðilar, þeir sem eru að taka áhættu og þeir sem eru að leika sér með peninga, eins og ég vil orða það, sem bera fyrir sig persónuverndinni jafnvel þó að þeir hafi verið að misnota aðstöðu sína til að sækja sér meira fjármagn en regluverkið hefði átt að gera ráð fyrir.