144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu von mín að okkur takist að efla traust á væntanlegu söluferli umfram það sem hefur gilt undanfarin ár og jafnvel allt fram á þennan dag. Við skynjum það strax í umræðunni að við minnsta tilefni er reynt að sá fræjum vantrausts um allt.

Ég hygg að það muni á endanum ekki ráðast af því hvort við höfum sérstaka sjálfstæða stofnun undir fjármálaráðherra, þar sem hann skipar alla stjórnarmennina, eða hvort við höfum ráðgjafarnefnd og hvernig hún hagar sér, heldur miklu frekar af því hvernig samskiptin milli framkvæmdarvaldsins og þingsins verða, hvernig staðið er að kynningu, hvernig staðið er að vali ráðgjafa og hvernig varðveitt er það sjálfstæði ráðgjafarnefndarinnar sem lagt er upp með í þessu frumvarpi.

Það er sömuleiðis mikilvægt að það sé samstaða um það í hvaða tilgangi menn ættu að vera að selja eignarhluti og í hvað eigi að ráðstafa söluandvirðinu. Ef hægt er að ná samstöðu um þetta allt saman held ég að það sé hægt að eyða (Forseti hringir.) því vantrausti sem hefur ríkt um þessi efni.