144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Maður þarf að vera mjög stuttorður en það er margt sem kom fram í ræðunni sem mig langar til að tala um.

Í fyrsta lagi, já, það er rétt, 50 milljóna rekstrarkostnaður er ekki mjög há tala á móti eignunum, en eigum við þá ekki líka að skipa sérstaka stjórn um eignarhald ríkisins á Landsvirkjun sem er álíka verðmætt ef ekki talsvert verðmætara fyrirtæki? Menn verða aðeins að velta fyrir sér hvort tilefni sé til að hafa sérstaka stofnun að störfum með fólki í fullu starfi allan daginn til að gegna þessu hlutverki. Það er aðalmálið, það er inntakið í þessu frumvarpi, eða eigum við að vera með ráðgjafarnefnd til að ná utan um þessi verkefni? Hér er áfram haldið í armslengdarsjónarmiðin.

Ég er ekki sammála því sem hv. þingmaður segir. Af hverju settum við þessa stofnun á fót tímabundið? Hvers vegna? Jú, vegna þess að við sáum ekki fyrir okkur að þetta ætti að vera varanlegt fyrirkomulag. Þetta er sjálfstæð ráðgjafarnefnd. Hún mun tryggja armslengdina frá ráðherranum inn í stjórn bankans og inn í aðrar ákvarðanir.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hefur sagt: Ja, kannski er það ekki í núverandi fyrirkomulagi að tryggja fullkomlega sjálfstæði (Forseti hringir.) stjórnarinnar gagnvart ráðherranum eins og ég hygg að Ólöf Nordal á sínum tíma og Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður þess tíma, hafi í raun verið að tala um.