144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta mjög áhugaverð umræða og áskil mér allan rétt til þess að móta mér skoðun á þessu máli í umfjöllun nefndarinnar en vil freista þess að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon út í þetta vegna þess að hann hefur mikla þekkingu á þessu öllu saman.

Á sínum tíma var gagnrýnt að armslengdin væri mögulega sýndararmslengd, aðallega vegna þess hvernig átti að skipa í stjórn Bankasýslunnar. Gott og vel, gefum okkur að hv. þingmaður, þáverandi hæstv. ráðherra, hafi rétt fyrir sér og armslengdin hafi virkað, þetta hafi verið algjörlega sjálfstæð stofnun og afskipti ráðherrans engin, en þá velti ég fyrir mér á þessum tímapunkti þegar við erum væntanlega að fara í söluferli á stórum hlutum í þessum fjármálafyrirtækjum hvort það væri þá endilega rétt fyrirkomulag. Er ekki hætta á að (Forseti hringir.) það yrði of lítið aðhald á þá mikilvægu stofnun í svo mikilvægu máli og (Forseti hringir.) óljóst hvar ábyrgðin lægi ef illa færi?