144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvergi þjappast jafn mikið vald saman á einum stað og í bönkum. Óhóflegt návígi og nábýli banka og pólitísks valds er mjög óæskilegt. Sporin hræða í þeim efnum. Við þurfum ekki að fara lengra aftur en til 2003 þegar bankarnir voru einkavæddir. Þar blandaðist í eitraðri blöndu þetta nábýli sem ég er að tala um. Menn gerðu sér grein fyrir þessu á sínum tíma þegar þeir settu lögin um Bankasýsluna, þá var reynt að draga eins langt á milli hins pólitíska valds og síðan þeirra sem höfðu eignarhaldið með höndum.

Hv. þingmaður hefur farið ákaflega vel yfir það hvaða máli Bankasýslan skipti varðandi armslengdarsjónarmiðið og hvað þessi ráðgjafarnefnd er í reynd allt annað og miklu ósjálfstæðara apparat en hún. Mig langar til að spyrja hann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að með 1. mgr. 8. gr., þar sem kemur skýrt fram að ráðherrann getur sjálfur, að eigin frumkvæði, hafið söluferli, hafi verið stigið verulega langt (Forseti hringir.) skref frá gildandi lögum vegna þess að þar er verið að færa pólitíska valdið á eignarhaldinu og ákvörðunarréttinum miklu nær hvort öðru en áður.