144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Tvennt, annars vegar er rétt að rifja upp í viðbót við það sem hv. þingmaður sagði í sínu andsvari að það er einmitt gott að gleyma því ekki alveg úr hvaða heimi við komum. Hvaðan komum við í þessum efnum? Jú, alveg fram undir hrun höfðu bankaráð allra stærstu bankanna í landinu verið skipuð af pólitíkusum og bankastjórarnir sjálfir voru upp til hópa uppgjafapólitíkusar. Svo nálægt var pólitíkin þessu. Vonandi erum við horfin frá því um aldur og ævi.

Það er fullkomið tilefni til að spyrja: Hvernig eigum við þá að búa um það að menn hrökkvi ekki samt eitt og eitt skref í sömu átt? Orðalagið í upphafsmálsgrein 8. gr. stuðaði mig líka, að ráðherra geti „að eigin frumkvæði, eða að fenginni tillögu ráðgjafarnefndar“, þ.e. ráðherrann getur algerlega sjálfur sett þetta ferli af stað. Hann verður að vísu að skila greinargerðinni og allt það, en í reynd er þarna alveg (Forseti hringir.) klippt af það sem er í lögunum um Bankasýsluna í dag, að hún ein geti lagt af stað í það ferli og komið með tillögu til ráðherra.