144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:17]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann segir að sér finnist það vera spurning hvort það sem hér er lagt til af hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og er stjórnarfrumvarp, sé tímabært og veltir fyrir sér hvort það sé rétt að málið sé í umsýslu fjármála- og efnahagsráðherra og ráðuneyti hans, að óheppilegt sé að taka milliliðinn í burtu og efast um að Ríkiskaup hafi næga sérþekkingu til að sjá um söluferlið. Hv. þingmaður telur að verið sé að breyta því sem hingað til hafi gengið vel og tekur fram að honum finnist gagnsæi afar mikilvægt.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er það rétt skilið hjá mér að hann sé á móti þessu frumvarpi? Er þingflokkur Framsóknarflokksins á móti frumvarpinu? Gengur það gegn samþykktum Framsóknarflokksins?