144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Forseti verður að fyrirgefa mér þó að ég sé svolítið rugluð í ríminu eftir ræðu hv. þingmanns. Þetta frumvarp gerir ráð fyrir sölu Landsbankans eða sölu 30% hlutar í Landsbankanum. Ríkisfjármálaáætlunin gerir líka ráð fyrir sölu 30% hlutar í Landsbankanum. Samþykkt Framsóknarflokksins gengur gegn báðum þessum málum. Við erum nýbúin að eyða hér löngum tíma í að ræða náttúrupassann sem var dauður áður en hann kom í þingið. Er eitthvað annað slíkt hér á ferðinni?

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki betra til árangurs að stjórnarflokkarnir komi sér saman um hvernig þeir vilja hafa hlutina, að minnsta kosti í stórum dráttum, áður en þeir henda því í okkur hér í þinginu? Sér hv. þingmaður það fyrir sér við komum með nýja tillögu í fjárlaganefnd sem sætti kannski (Forseti hringir.) stjórnarflokkana hvað þetta varðar?