144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyni að ná ræðum hv. þm. Frosta Sigurjónssonar vegna þess að þrátt fyrir að vera stundum ósammála honum þá langar mig alltaf að heyra hvað honum finnst, hann kemur hér almennt með ferskan blæ í þessum efnum. Því vekur það mann einmitt svolítið til umhugsunar að hæstv. ráðherra hafi sent málið til hv. fjárlaganefndar en ekki hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég hefði talið góðan brag á því að það færi til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem mér þykir svona að öllu jöfnu mun víðtækari þankagangur í gangi en hv. fjárlaganefnd sinnir kannski tiltölulega meira afmörkuðum verkefnum, að því er virðist alla vega.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann um hugmynd hans, eða hvort ég skilji hugmynd hans rétt og endilega að hann fari meira út í hana — þetta er enginn tími sem maður hefur hérna — þ.e. að Landsbankanum verði sett sú stefna að vera í samkeppni við aðra banka, ef ég skil hv. þingmann rétt, að það sé hugmyndin, Landsbankinn sé í samkeppni við aðra banka, haldi einkabönkunum svolítið á mottunni í samkeppninni þannig að þetta verði eins konar blanda af kerfi einkabanka og ríkisbanka.

Mig langar endilega að heyra meira um það vegna þess að ég er ekki viss um að ég skilji þetta rétt. Ég þakka hv. (Forseti hringir.) þingmanni fyrir fram fyrir svarið.