144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:22]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu og fagna tækifærinu að fá að lýsa aðeins betur hugmyndinni um samfélagsbanka. Það er vissulega ekki ný hugmynd af nálinni, hún þekkist frá ýmsum löndum, t.d. Þýskalandi þar sem sparisjóðir hafa verið í því hlutverki, þeir eru náttúrlega miklu stærri en okkar sparisjóðir, en þjónusta samfélag sitt ekki með hámörkun hagnaðar að leiðarljósi heldur það að hámarka þjónustu við samfélagið.

Bankar eru svolítið sérstakar stofnanir að því leyti að þær hafa miklar heimildir, m.a. heimildir til þess að búa til peninga eða ígildi peninga. Það er eiginlega enginn endir á því ef það er fákeppni á bankamarkaði eins og getur gerst í litlum mörkuðum, t.d. á Íslandi þar sem þrír bankar eru með meiri hluta markaðarins, 90%, og það er mjög erfitt að stofna banka. Það eru svokallaðar aðgangshindranir á markaðnum sem eru mjög miklar og þá hafa slíkir bankar nokkurs konar vernd gegn samkeppni. Þegar er svona samkeppnisbrestur þá getur það verið mikilvægt hlutverk fyrir ríkið, sem almennt ætti ekki að vera að skipta sér af mörkuðum, að skipta sér af og leiða samkeppnina, ekki til þess að knýja fram tap hjá öðrum bönkum á nokkurn hátt heldur bara að hagnaðurinn sé hóflegur, hann sé eðlilegur. Auðvitað er ekki verið að leggja til að samfélagsbanki tapi peningum, heldur að hann sé rekinn út frá því sjónarmiði að veita bestu þjónustu á hagkvæmu verði, (Forseti hringir.) ekki með hámörkun hagnaðar að leiðarljósi (Forseti hringir.) heldur hámörkun á þjónustu að leiðarljósi.