144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson flutti mjög athyglisverða ræðu áðan. Meginefni þess frumvarps sem ræða hv. þingmanns fjallaði um er tvenns konar. Í fyrsta lagi er lagt til í frumvarpinu til að Bankasýslan verði lögð niður. Í öðru lagi er lagt til að 30% úr Landsbanka Íslands verði seld. Í ræðu hv. þingmanns kom fram að hann teldi ótímabært að leggja niður Bankasýsluna og hann hefði efasemdir um að það væri rétt að selja þessi 30%. Það sem skiptir þó mest er að flokksþing Framsóknarflokksins hefur sagt það svart á hvítu að það telji að Bankasýslan eigi að lifa og í öðru lagi að Landsbankinn eigi að vera samfélagsbanki.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Ber ekki þingmönnum Framsóknarflokksins sem sitja á Alþingi að fara eftir þessum ályktunum flokksþings Framsóknar? (Gripið fram í.)