144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:28]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt stjórnarskránni ber þingmönnum að sjálfsögðu að fara eftir eigin sannfæringu en það hefur vissulega áhrif á sannfæringu okkar hvaða ályktanir eru gerðar á flokksþingi Framsóknarflokksins og það geta verið góðar hugmyndir, það er auðvitað samt hverjum þingmanni í sjálfsvald sett hvað hann vill tileinka sér af þeim. En ég held að þessi stefna sé skýr og þessar ályktanir þingflokksins eru alveg skýrar og að sjálfsögðu held ég að þingmenn Framsóknarflokksins reyni að fylgja þeim í hvívetna svo lengi sem það stangast ekki á við þeirra eigin sannfæringu. Þetta er nú svona.

Varðandi þetta frumvarp og söluheimildir eignarhluta sem hv. þingmaður vék einnig að þá er þar líka fjallað um sölu eignarhluta ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka og eignarhluti ríkisins í sparisjóðunum. Ég held að í sjálfu sér sé ekkert óheppilegt að skoða sölu á þeim eins og þessum litlu hlutum í Arion banka og Íslandsbanka. Ég held að ef við seljum Landsbankann, ef við seljum þann hlut og missum (Forseti hringir.) þetta tækifæri til þess að gera hann að samfélagsbanka — það er eitthvað sem við ættum að velta (Forseti hringir.) vandlega fyrir okkur áður en við gerum það.