144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er rétt, það gerðist áður, það var 1. apríl, stóra daginn. Þá var ýmsum málum dreift og við landsmenn höfðum ekki undan að velta fyrir okkur hvað væri aprílgabb og hvað ekki og því miður var þetta ekki allt aprílgabb. Þar var lögð fram ríkisfjármálaáætlun sem gerir ráð fyrir sölu Landsbankans og þar var þetta frumvarp lagt fram sem gerir ráð fyrir því að Bankasýslan verði lögð niður og að hluti af Landsbankanum verði seldur. Síðan kom þetta þing og það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur hér í umræðunni að vita hvort málið er á dagskrá af því við ætlum í málfundaæfingar eða hvort ríkisstjórninni sé alvara með því að þetta frumvarp eigi að verða að lögum. Þingið getur rætt það sem það vill en það hlýtur að verða að ganga út frá því að ríkisstjórn sem leggur fram mál geri það til þess að þau verði gerð að lögum.