144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég get alveg fallist á það að vald geti verið óheppilegt sé það of mikið, hver svo sem fer með það, og sérstaklega ef því er ekki rétt beitt.

Þetta mál snýr einmitt að lýðræði og gegnsæi sem okkur er svo tíðrætt um hér á Alþingi og viljum held ég flest auka. Þetta er eitt af þeim frumvörpum sem mér finnst ekki ná tilgangi sínum hvað það varðar. Það eru nokkur atriði sem ég hnýt um. Það sem kom fram áðan varðandi 8. gr., að ráðherra gæti að eigin frumkvæði ákveðið að hefja sölumeðferð, er eitt af því sem mér finnst snúast um að auka völd til ráðherrans.

Síðan langar mig að velta upp því er varðar Ríkiskaup annars vegar og Bankasýsluna hins vegar. Nú hefur Bankasýslan séð um að undirbúa sölu. Það kom fram í máli ráðherra hér áðan, mér er skapi næst að skilja það svo að fólkið sem þar vinnur geri ekki neitt. Það er eiginlega ekki hægt að túlka orð ráðherrans öðruvísi en svo að það hlyti að vera löngu búið að meta allt sem þyrfti að meta og lítið væri að gera. Síðan var velt hér upp þekkingu til þess að annast slíkar sölur. Lagt er til að Ríkiskaup geri það. Það má velta því upp hvort sú stofnun búi yfir þeirri faglegu þekkingu sem til þarf. Á bls. 6 er aftur talað um að Alþingi hafi lækkað fjárframlögin til Bankasýslunnar, sem við þekkjum úr fjárlagaumræðunni. Hér kemur fram að fjárheimildir til stofnunarinnar verði alfarið felldar niður. Samt á frumvarpið að taka gildi 1. janúar 2016, en stofnunin (Forseti hringir.) hefur bara heimildir í fjárlögum fram til miðs þessa árs. Hvað finnst hv. þingmanni um þessa stjórnsýslu?