144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hóf ræðu sína á því að segja meðal annars að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu í þessari umræðu verið að tala hver við annan. Það er ekki alls kostar rétt hjá hv. þingmanni vegna þess að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hélt ágæta ræðu, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Hann gagnrýndi þetta frumvarp og það var ekki annað á honum að skilja en hann gæti ekki samþykkt það eins og það er. Undir liggur samþykkt Framsóknar um hvernig eigi að fara með hlut okkar í Landsbankanum.

Nú heyri ég á hv. þingmanni að hann er mjög hlynntur þessu frumvarpi og styður það greinilega en ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að okkur sé vandi á höndum ef ljóst er áður en frumvarpið fer til nefndar að ekki er meiri hluti fyrir meginhugmyndinni.