144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum náttúrlega með ákveðinn stjórnarsáttmála í þessari ríkisstjórn og eitt af því sem hún gerði, og ég tók þátt í því starfi, var að setja af stað hagræðingarhóp. Markmið hópsins var einfaldlega að reyna að ná fram sparnaði í ríkisrekstri, af augljósum ástæðum. Það á alltaf við en kannski einkum núna. Eitt af því sem við skoðuðum sérstaklega var Bankasýslan. Þarna voru góðir hv. þingmenn úr Framsóknarflokknum ásamt mér og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og niðurstaða okkar var sú að þar væri augljóslega hægt að spara. Menn gleyma því alltaf þegar þeir eru ofsalega örlátir og tala um hlutina eins og sjálfsagt sé að hafa allra handa ríkisútgjöld að það er fólkið í landinu sem borgar. Ef við erum með rekstur á þessari stofnun notum við þá peninga ekki í annað. Ef við náum að lækka kostnaðinn hvað það varðar getum við nýtt peningana í eitthvað annað. Ég hef trú á því að allir skynsamir þingmenn munu styðja slíkar hugmyndir.