144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður byrjaði á því að gera að umtalsefni þetta eina innlegg mitt um Benito Mussolini, ég tók reyndar sérstaklega fram að ég væri ekki að saka neinn hér um að aðhyllast stefnu hans og hv. þingmaður telur það væntanlega ekki, en mér þótti þó áhugavert að hv. þingmaður fór síðan í þó nokkuð lengri söguskýringu en sá sem hér stendur um það. Það er gott og blessað, enda finnst mér bara vel við hæfi að við höfum söguna fyrir framan okkur þegar við ræðum málin hér almennt.

Nú hef ég engan tíma til að fara yfir allt sem ég ætlaði að segja, en dæmi um það sem vekur tortryggni, en hv. þingmaður kallar ljótan leik, er þegar hótað er niðurskurði gagnvart RÚV þegar efnið er hv. þingmanni ekki að skapi, það er afskipti þingmanns af fjármögnun HÍ þegar rannsóknarefnið er hv. þingmanni ekki að skapi — ég er ekki að tala um hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson heldur annan — og þegar lögmæti málsmeðferðarinnar í skýrslugerð í lekamálinu er vefengd af öðrum hv. þingmanni og síðast en ekki síst sniðganga hæstv. utanríkisráðherra gagnvart þinginu í ESB-málinu. (Forseti hringir.) Það er tortryggni gagnvart þessari ríkisstjórn vegna þess að hún hagar sér eins og hún sé ekki hæf til að fara með vald. Það er ástæðan fyrir því að við eigum að velta fyrir okkur lögmæti valds og meðferð þess hér á hinu háa Alþingi.