144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að það var mjög lítið efnislega gagnrýnt frá meiri hlutanum í umræðunni um lekaskýrslurnar tvær var einfaldlega sú að það var ekkert efni til að ræða um frá meiri hlutanum. Það voru þrjár setningar sem snerust alfarið um að málinu væri lokið, bara til að halda því til haga.

Nú nefndi ég ekki bankabónusa í ræðu minni og ætla ekki að taka þátt í þeirri umræðu hér og nú vegna þess að ég vil einfaldlega hlusta frekar á aðra í þeim efnum í bili. En í stað þess að við séum að kýta um þetta efni langar mig þess í stað, vegna þess að hv. þingmaður spurði um efnislega afstöðu til þessa tiltekna frumvarps, að beina honum aftur inn á efnislegu brautina.

Telur hv. þingmaður, með hliðsjón af gjaldeyrishöftum, skynsamlegt að fara í einkavæðingarferli bankanna á meðan verið er að finna leið til að losa um gjaldeyrishöftin eða hvernig sér hann einkavæðingu bankanna í samhengi við það? Hér er um að ræða risastórt verkefni, afnám gjaldeyrishafta, sem ég hefði haldið að við þyrftum ákveðið svigrúm til að meta, bæði afleiðingarnar af því og sömuleiðis einfaldlega hvað eigi að gera. Ég hefði gaman af að heyra um sýn hv. þingmanns um samhengið milli afnáms gjaldeyrishafta og einkavæðingar bankanna.