144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get talað hratt en hvort ég næ að svara öllu þessu á einni mínútu veit ég ekki. Hins vegar er stóra myndin þessi: Þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs eru vaxtagreiðslur. Við setjum meiri peninga í vexti á hverju einasta ári en sem nemur öllum rekstri Landspítalans og öllum framlögum til Sjúkratrygginga samanlagt. Meðan við gerum þetta og þessi staða er uppi, þá erum við með skipulegum hætti að skerða lífskjör barna okkar og barnabarna. Það er bara svo einfalt. Við eigum hins vegar eignir og ef við seljum þær þá getum við grynnkað á skuldum. (Gripið fram í.)

Síðan þurfum við að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar. En meira að segja þegar um er að ræða svona pínumál sem maður mundi ætla að allir væru sammála um, þar sem eru þó einhverjir tugir milljóna sem við getum notað í annað, kemur alltaf upp andstaða. Þetta er nákvæmlega þannig í fjárlögunum, það er sama hvar maður kemur niður. Meira að segja fjölmiðlastofa. Við höfðum enga fjölmiðlastofu frá landnámi til 2011 (Forseti hringir.) og það var bara allt í lagi. Nei, það má alls ekki spara þar frekar en neins staðar annars staðar.