144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst í mínum huga að þetta er vont frumvarp, mér finnst það undarlegt og svo mætti kannski orða það þannig að það væri dálítið kvíðvænlegt þegar fyrir liggur að það er ætlun annars stjórnarflokksins að minnsta kosti að selja Landsbankann eða 30% í honum, sem ég er svo sem ekkert á móti og vonandi vilja einhverjir kaupa hina tvo bankana, þá skuli eiga að færa alla ákvörðunartöku um þetta efni bara inn á borð hjá fjármálaráðuneytinu. Við höfum vonda reynslu af einkavæðingu og hér liggur fyrir og hefur verið samþykkt í þinginu þingsályktunartillaga um að rannsaka einkavæðingu bankanna fyrr á tímum og ég held að við ættum að gera það áður en við förum að draga úr þeirri stofnanavæðingu sem er þó í kringum Bankasýsluna núna. Við megum náttúrlega ekki alltaf falla í þá gryfju að af því að eitthvað kosti peninga og kannski meiri peninga að gera hlutina svona heldur en einhvern veginn öðruvísi þá sé það vont.

Ég hafði ekki tækifæri til að hlusta á alla umræðuna en það var ýjað að því áðan að þetta frumvarp væri fyrst og fremst komið út úr hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar sem vildi líka fella niður Þróunarsamvinnustofnun og það var tillaga þeirra nr. 23. Hefur hv. þingmaður einhverja skoðun á því, hvort það gæti verið að þetta væri fyrst og fremst lagt fram til að spara eitthvað?