144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, þetta er ein af þeirra tillögum. Það vill nú svo til, af því að ég nefndi áðan að frumvarpinu er vísað inn í fjárlaganefnd, að þar situr hagræðingarhópurinn allur eins og hann leggur sig (Gripið fram í.) nema hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir vissulega, hún er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, en hinir þrír sitja þar inni. (Gripið fram í: Afplánun.)

Það er gott að spara og það er gott að spara í ríkisfjármálum eins og annars staðar en það skiptir máli hver tilgangurinn er og mér finnst tilgangurinn hér ekki helga meðalið. Ef við teljum vera agnúa á fyrirkomulaginu hjá Bankasýslu ríkisins í dag þá finnst mér, meðan við erum í þeirri óvissu sem við erum í dag bæði varðandi afnám hafta og sölu á bönkum og fjármálastofnunum, að við eigum frekar að staldra við. Það er alveg rétt, það má gera ýmislegt fyrir 50 millj. kr., en ég tel samt sem áður að þeim peningum sé vel varið í að halda utan um þetta og þá þekkingu sem þarna hefur skapast. Ég held að við eigum frekar að lagfæra það sem okkur finnst vera að en að leggja stofnunina niður á þessum tímapunkti. Ég er alls ekki sannfærð um að sú leið sem hér á að fara sé heppilegust. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við höfum ekki góða reynslu af einkavæðingu og auðvitað getum við sagt að sporin hræði. Þess vegna er það eiginlega með ólíkindum að þingmönnum sem skrifuðu undir títtnefnt armslengdarsjónarmið á síðasta kjörtímabili þyki það í lagi (Forseti hringir.) af því að þeir töldu það ekki virka nógu vel en þeir eru ekki tilbúnir (Forseti hringir.) til að lagfæra agnúana.