144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum ekki lagað það og sett stóru fjármálastofnanirnar, sem fóru á hausinn eftir bankahrunið, aftur inn í stofnunina. Þær eru farnar á hausinn, SpKef og Byr eru farnir á hausinn. Eignarhlutinn af þeim var aldrei inni í Bankasýslunni þrátt fyrir að lögin kvæðu á um að eignarhlutur banka í eigu ríkisins ætti að vera inni í Bankasýslunni. Nú eru þær fjármálastofnanir farnar á hausinn og reikningurinn kominn til skattgreiðenda þannig að við lögum það ekkert.

Einhverja praktíska hluti hvað það varðar hvernig hlutunum verður fyrir komið — það er væntanlega það sem við munum fara yfir í hv. fjárlaganefnd. Ég veit að fenginni reynslu að hv. þingmaður sem hér hefur talað mun koma með góðar athugasemdir og fara vel yfir það ásamt öðrum hv. þingmönnum í fjárlaganefnd. Það er bara praktískt mál. En þetta eru tveir starfsmenn. Þekking þeirra hverfur ekkert þó að við leggjum stofnunina niður, það gerist ekki, en við getum því miður ekki lagað þau mistök sem fólust í því að ekki var farið eftir lögum um Bankasýsluna fyrir gjaldþrot.