144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, við getum nefnilega lagað hlutina. Þingmaðurinn hélt því fram að eitthvað hefði ekki gengið upp og þá getum við lagfært það þannig að það komi ekki fyrir aftur. Það geta varla verið rök fyrir því að leggja Bankasýsluna niður að þingmaðurinn telji að tveir sparisjóðir hafi ekki farið inn í Bankasýsluna eins og hann nefnir, sem ég ætla ekki að taka afstöðu til. Það þýðir ekki að leggja beri stofnunina niður af því að hann telur að hún hafi ekki virkað. Það má jafnvel segja að pólitíkusarnir hafi ekki virkað, (Gripið fram í.) er það ekki þannig? Þegar einkavæðing bankanna átti sér stað hér á árum áður þá virkaði pólitíkin ekki og nákvæmlega það sama er verið að gera aftur. Við erum að fara aftur til fortíðar með því að færa þetta inn í ráðuneytin og það er það sem ber að varast. Við þurfum ekki að brenna okkur á sömu hlutunum mörgum sinnum.