144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, enda fyrrverandi fjármálaráðherra sem þar er á ferð. Mig langar að spyrja út í sparnað af þeim breytingum að færa þetta úr því að vera innan Bankasýslunnar og í faðminn á fjármálaráðherra með ráðgjafarnefndina sér til halds og trausts. Það hefur komið fram að það geti verið á bilinu 40–50 millj. kr. sparnaður árlega miðað við rekstrarkostnað Bankasýslunnar, en sá rekstrarkostnaður er í dag um 95–100 millj. kr. Fram kom að bæta þurfi við nýjum stöðugildum í fjármálaráðuneytinu, tveimur til þremur, og hér er sagt að kostnaður gæti líka verið í kringum sérfræði- og ráðgjafarkostnað. Þetta gæti því orðið hærri upphæð en sem nemur tveimur eða þremur stöðugildum.

Sér hv. þingmaður þegar upp er staðið að hægt sé að rökstyðja þessa breytingu vegna sparnaðar og hagræðingar þegar fjármálafyrirtækin eða eign ríkisins í fjármálafyrirtækjum — þá erum við að tala um 250–300 milljarða sem eignarhlut ríkisins í dag í þeim fjármálafyrirtækjum, sparnaður upp á 40–50 millj. er kannski ekki stór í því samhengi að gæta hluta ríkisins og þá meðferð ef af verður að selja einhvern hlut ríkisins?