144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef þessi málatilbúnaður allur snýst ekki um sparnað þegar upp er staðið, þá spyr maður sig, snýst þetta þá um einhvern faglegan ávinning? Þetta tvennt fer nú yfirleitt saman ef menn vilja breyta einhverju í stjórnkerfi landsins eða bara yfir höfuð í þjóðfélaginu, að menn sjái þetta hvort tveggja í sameiningu, sparnað og einhvern faglegan ávinning.

Nú hefur komið fram að lög eru um fjármálaeftirlit og eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum, allt þetta verður þá í lögum, ef af verður, undir sama ráðuneytinu. Telur hv. þingmaður að það geti staðist góða stjórnsýslu að hafa það með þeim hætti? Er það ekki spurning um trúverðugleika þegar þetta hvort tveggja er undir sama ráðuneyti? Akkúrat svona viðkvæmur málaflokkur sem þetta, þar ætti að vera meira en armslengd á milli. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það.

Og líka það sem kom fram hjá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni. Í máli hans kom fram að hann væri ekki mjög áhugasamur um að þessi breyting yrði á og Bankasýslan lögð niður, en lagði það eiginlega til að þetta yrði bætt og lagað í fjárlaganefnd. Ætlar hv. þingmaður að taka að sér sáttameðferð milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og ná einhverju fram sem þeir gátu ekki náð sátt um áður en þeir lögðu þetta frumvarp fram?