144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það verður áhugavert að taka þátt í þeirri vinnu sem ætlast er til að við vinnum í hv. fjárlaganefnd. Að vísu eru menn hér ekki sammála um að það eigi að fara með frumvarpið í þá nefnd og það má vera að þegar atkvæðagreiðsla verður um það falli sú tillaga hæstv. ráðherra, og ég býst við að svo muni verða. Ég býst við því að framsóknarmenn muni styðja það að frumvarpið fari í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson er formaður.

En hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar virðist hafa ansi mikil völd en þó trúi ég því varla að farið sé fram með breytingar sem þessar, bara til að þóknast hv. þingmönnum sem skipa hagræðingarhópinn, ég trúi því ekki. Ég trúi því frekar að tillögur hópsins séu notaðar sem afsökun fyrir því að fara út í þetta ferli. Eins og ég sagði áðan er ég hissa á því að hæstv. ráðherra skuli fara út á þann hála ís. Næg eru nú gagnrýnisefnin, næg eru nú vonbrigðin með hæstv. ríkisstjórn og vantraustið á forustumönnum hæstv. ríkisstjórnar. Kannski hugsa þeir: Það treystir okkur hvort sem er enginn, þannig að við skulum bara halda áfram á þessari braut, hver veit. En þetta frumvarp er ekki líklegt til að auka traust.