144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er þessi ágæta ríkisstjórn að verða tveggja ára 23. maí og þá er komið að síðari hálfleik og myndin fer að skýrast eftir því sem þessu vindur öllu saman fram. Eitt af því er það að við gætum farið að leggja fram dágóðan lista af málum sem snúast um það að taka völd til ráðherranna, fjarlægja völdin almenningi, fjarlægja völdin þinginu og draga þau til ráðherranna.

Annað er það sem er líka að verða algengara núna eftir því sem tímabilinu vindur fram, það er það sem kom fram í máli hv. þingmanns að hér eru ítrekað að koma fram mál þar sem er mjög afgerandi ágreiningur milli stjórnarflokkanna og jafnvel gengur það svo langt að málin eru dauð áður en þau komast til nefndar. Hv. þingmaður komst svo vel að orði áðan að tala um náttúrupassaheilkennið, þ.e. að mál er ekki einu sinni komið til nefndar og í umsagnarferli þegar það er í raun og veru búið að vera. Það gerðist með náttúrupassann sem var búinn að vera áður en hann komst til nefndar. Við getum nefnt náttúrupassann, við getum nefnt bankabónusana, mál sem er núna í efnahags- og viðskiptanefnd og Framsóknarflokkurinn búinn að álykta gegn. Við getum nefnt húsnæðisfrumvörp húsnæðismálaráðherra sem eru föst og í gíslingu í fjármálaráðuneytinu. Við getum nefnt fiskveiðistjórnarkerfið. Og við getum nefnt það sem er að gerast hér aftur og aftur að verið er að greiða atkvæði, eða það er þessi venja sem er að skapast hér að ráðherrar vísa málum til þeirrar nefndar sem þeir telja líklegast að klári málin eins og þeim þóknast en ekki samkvæmt þingsköpum. Það er allt saman til mikillar umhugsunar. Það er í raun og veru með ólíkindum að hlusta ekkert á formann efnahags- og viðskiptanefndar rekja málið (Forseti hringir.) og í raun og veru halda ræðu sem (Forseti hringir.) við öll hér í stjórnarandstöðunni yrðum fullsæmd af.