144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki voru þau spöruð stóru orðin í þessari ræðu hv. þingmanns. Ég verð að viðurkenna að ég var að vonast til þess að hv. þingmaður yrði ögn málefnalegri, en gott og vel.

Bankasýslan var, eins og við vitum, stofnuð til að halda utan um alla eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þá stóð til að þrír stóru viðskiptabankarnir væru þar inni og sparisjóðirnir. Hv. þingmaður talaði eins og þetta hafi verið rosaleg reglufesta og fagleg umgjörð. Hv. þingmaður var í síðustu ríkisstjórn og þekkir málin mjög vel. Hann veit nákvæmlega að eignarhlutarnir voru ekkert í Bankasýslunni, ef svo bar undir. Hann veit alveg um Byr og SpKef, það fór aldrei undir Bankasýsluna. Hann veit líka að Bankasýslan kom með sérstaka áætlun, lagði mikla vinnu í það, kynnti það fyrir hv. viðskiptanefnd, um það hvernig ætti að fara með sparisjóðina. Það var ekkert farið eftir því, ekki í einu eða neinu. Nú liggur það fyrir, í rannsóknarskýrslu um sparisjóðina, að varað er við þeirri leið sem hæstv. ríkisstjórn fór í sem kostaði gríðarlega fjármuni.

Hér erum við að tala um tveggja manna stofnun sem kostar mikla peninga, þriggja manna stjórn. Hv. þingmaður talaði á þann veg um hæstv. fjármálaráðherra — ég ætla ekki að vera með neinar samlíkingar um það — að mér finnst það ekki vera honum samboðið af því að ég veit að hv. þingmaður hefur ekki þann mann geyma. En hæstv. fjármálaráðherra getur nú skipað stjórn Bankasýslunnar nákvæmlega eins og hann getur skipað ráðgjafarnefndir. Það er alveg ljóst, af reynslu síðustu ára, að Bankasýslan er engin (Forseti hringir.) trygging fyrir reglufestu eða faglegri umgjörð. Það þekkir hv. þingmaður frá fyrstu hendi.