144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fjalla um það á hvaða hátt fjármálaráðuneytið skilaði eignarhlutum til Bankasýslunnar, það er auðvitað sjálfstætt umfjöllunarefni. Bankasýslan, ég get bara nefnt dæmi af því sem efnahags- og viðskiptaráðherra, hafði til dæmis sjónarmið um með hvaða hætti mikilvægt væri að tryggja samkeppni á fjármálamarkaði, og ég átti samtöl við Bankasýsluna og forsvarsmenn hennar um það. Ef gallar eru á umgjörð Bankasýslunnar, þá er hægt að vinna úr því. Ef vilji ríkisstjórnarinnar stendur til þess að einfalda og spara, skulum við reyna að finna í sameiningu einhverja umgjörð sem er boðleg, sem viðheldur armslengdarsjónarmiðum.

Það er ekki hægt að líta fram hjá því að í þessu frumvarpi er verið að afnema allar hindranir og allar hömlur á ákvarðanir hæstv. fjármálaráðherra og fela honum algert sjálfdæmi um þær forsendur sem hann leggur til grundvallar og fer eftir við meðferð á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Það er grundvallarbreyting því að fjármálaráðherra hefur í dag ekki það vald og getur til dæmis ekki veitt fyrirmæli til Bankasýslunnar nema með því að birta þau opinberlega, senda þau efnahags- og viðskiptanefnd vegna þess að það er talið óeðlilegt að hann veiti slík fyrirmæli.

Hér eru engar hömlur á fyrirmælum sem hæstv. fjármálaráðherra getur gefið, engar hömlur á því hvað hann getur sagt við stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum, engar hömlur á því hvernig þeir eru valdir að öðru leyti en því að hinir sérvöldu vildarvinir hæstv. fjármálaráðherra, sem eru í ráðgjafarnefndinni, eiga að sjá um að velja hina útvöldu. Þetta er grundvallarbreyting og þegar hæstv. fjármálaráðherra kýs að leggja málið upp með þessum hætti þá getur hann ekki (Forseti hringir.) vænst þess, eða hans flokksmenn, að það sé tekið vettlingatökum. (Forseti hringir.) Í því felst grundvallarbreyting og fráhvarf frá þeirri pólitísku samstöðu sem hefur verið um að tryggja armslengd að þessu leyti.