144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast bara ekki við þessa armslengd sem á að hafa verið á síðasta kjörtímabili. Ég hvet menn til að lesa lögin um Bankasýslu ríkisins. Bankasýslan er ekkert að fara að selja eitt eða neitt, hún bara gerir tillögu til hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er nákvæmlega það sama. Menn tala hér um stofnun sem er tveggja manna með þriggja manna stjórn og kostar nærri 400 millj. kr. á 6 árum og var með allt annað hlutverk þegar lagt var af stað með hana en síðan reyndist. Þetta er í raun Landsbankasýsla ríkisins, ekki Bankasýsla. Menn tala eins og hæstv. fjármálaráðherra geti bara vaknað einn daginn og sagt: Þarna er hv. þm. Helgi Hjörvar, mér líkar vel við hann. Heyrðu, komdu vinur. Ég ætla að gefa þér Landsbankann. — Hvaða rugl er þetta?

Menn vita alveg að það skiptir engu máli hvort við höfum lög um Bankasýsluna eða hvað það er, ef við ætlum að fara í einkavæðingu á bönkunum þá þarf að samþykkja það í fjárlögum og það þarf að vinna það eftir ákveðnum prósess. Bankasýslan, lesið þið bara lögin um hlutverk hennar, sér ekkert um einkavæðingu, hún gerir bara tillögur. Og stjórn Bankasýslunnar er nokkuð sem fjármálaráðherra skipar einn og sér.

Síðan höfum við reynsluna frá síðasta kjörtímabili og auðvitað þurfum við að ræða það og við munum ræða það. Það stendur í lögum um Bankasýsluna að hún eigi að fara með eignarhlutina í fjármálafyrirtækjum en það var bara ekkert gert. Og fjármálafyrirtækin, Byr og SpKef, voru í rekstri án þess að uppfylla lögbundin skilyrði. Þau uppfylltu ekki lögbundin skilyrði. Er það reglufesta og faglegheit? Við vorum með Bankasýslu. Hún fékk bara ekkert fyrirtækin. Hún kom með tillögu um sparisjóðina, það var ekkert farið eftir þeim, enda hafði hún engin tök á því.

Náum samstöðu um armslengd, náum samstöðu um fagleg vinnubrögð. En að koma hér upp og ætla hæstv. fjármálaráðherra þá hluti sem hv. þingmaður kom með hér — ég þekki hv. þingmann og ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé að meina það sem hann lagði upp með.