144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hún kom inn á margt sem ég tel að skipti mjög miklu máli í þessu dæmi öllu saman. Til dæmis það sem hún nefndi undir lok ræðunnar — nú veit ég að hér á árum áður var gjarnan talað um hina hagsýnu húsmóður og talað um að konur kynnu kannski betur að fara með peninga en karlar, og ég tel að hv. þingmaður flokkist undir hinar hagsýnu húsmæður í þeirri myndlíkingu — að 50 millj. kr. sparnaður, í dæminu um það þegar verið er að fara með 200–300 milljarða kr. eignir, þá eru það náttúrlega smáaurar.

Mig langar líka til að biðja þingmanninn að koma aðeins inn á annað, vegna þess að menn segja hér að lítill munur sé nú á því að vera með ráðgjafarnefnd sem ráðherrann skipi eða Bankasýslu og þar skipi ráðherrann líka í stjórn og þar fram eftir götunum, og vilja gera mjög lítið úr þessu. Í mínum huga er mikill munur á því að hafa málefni af þessu tagi beint inni á borði hjá ráðherranum, og þá er alveg sama hver ráðherrann er, eða að hafa slík völd í sjálfstæðri stofnun. Getur þingmaðurinn verið sammála mér um það (Forseti hringir.) að mikill eðlismunur er á þessu tvennu og mikið meira traust í því að hafa sjálfstæða stofnun en að hafa þetta allt á sama skrifborðshorninu?