144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef grun um að eitthvað annað hagi á spýtunni því að það sjá allir að sparnaður upp á 50 milljónir á móti þeim 300 milljörðum sem þarna eru undir, eftirlit með þeim af hálfu ríkisins, er lágt hlutfall. Við vitum auðvitað ekkert hvað þessi breyting mun kosta mikið þegar upp er staðið og ráða þarf ýmsa sérfræðinga í ráðuneytin til að skoða þessi mál, þegar með þarf.

Mér fannst ágætt að hv. þingmaður nefndi hvernig Bankasýslan er til komin og að meðal annars sérfræðingar hefðu lagt til að skynsamlegt væri að hafa þetta á þennan hátt þegar ríkið var komið með fjármálastofnanir landsins í fangið eftir hrunið. Maður spyr sig núna: Hvaða sérfræðingar hafa ráðlagt núverandi ríkisstjórn að gera hlutina svona? Það væri gott að fá fram og í raun hefði það átt að vera rökstuðningur með þessu frumvarpi að menn væru að hverfa frá einhverju, eins og því fyrirkomulagi sem er í dag varðandi Bankasýsluna og sjálfstæði hennar, vegna þess að menn væru að fara í enn betra ferli sem tryggði að ekki væru pólitísk fingraför á umsýslu með eins miklum fjármunum og þarna eru á ferðinni í fjármálakerfinu. En ég hef ekki orðið vör við það í neinum rökstuðningi eða greinargerð með frumvarpinu, það segir kannski sína sögu að svo er ekki.