144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:19]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál snýst nú ekki um það hvort ákveðnar stofnanir hafi trúverðugleika eða ekki, heldur kannski frekar hvar þeirra sérsvið er. Það er ekki sérsvið Ríkiskaupa að annast sölumeðferð hluta í fjármálafyrirtækjum. Ríkisendurskoðun gegnir auðvitað veigamiklu hlutverki, en það er ekki þar með sagt að það eitt og sér bæti þetta mál svo gott sé, af því að mér finnst engin rök hafa komið fram fyrir þeim breytingum að leggja niður sjálfstæða stofnun, sem er Bankasýslan, og hefur þetta stóra hlutverk að halda utan um eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Bankasýslan hefur mikla sérþekkingu á að annast samskipti ríkisins við fjármálafyrirtækin. Og er ekki rétt að (Forseti hringir.) nýta þá faglegu þekkingu sem þar hefur skapast? Ég sé enga ástæðu til þess að fara að efna til breytinga á því, einhverju sem er gott í dag.