144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir muninn á því að vista svona verkefni í sjálfstæðri stofnun eða einingu undir stjórn sem er utan veggja ráðuneytis borið saman við að setja allt sitt traust á það að ráðgjafarnefnd, sem verður í ráðuneytinu, með starfsaðstöðu í ráðuneytinu o.s.frv., þjóni sama tilgangi. Þetta held ég að sé kjarni þessa máls, að það er grundvallarbreyting að hverfa frá sjálfstæðri stofnun og stjórn yfir í nefnd, sem ekki er bara skipuð af ráðherranum heldur á að hafa starfsaðstöðu í ráðuneytinu og vinna í þeirri miklu nánd við ráðherra.

Þetta má setja í samhengi við afstöðu núverandi stjórnarflokka og spyrja: Hvað hefur þá gerst, því að ekki er það bara Framsóknarflokkurinn með sína samþykkt? Ég vil spyrja hv. þingmann: Hefur hann rifjað upp eða lesið aftur afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins hér vorið og sumarið 2009, þegar þeir höfðu fyrst og fremst áhyggjur af því, í sambandi við Bankasýsluna, að hún væri ekki (Forseti hringir.) nógu langt í burtu frá ráðherra?