144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, við ræddum þetta aðeins fyrr í dag og ég mótmælti þeim rökum fjármálaráðherra að það væri há tala að rekstrarkostnaður þeirrar einingar sem sæi um þennan verðmæta eignarhlut ríkisins — sem passaði upp á verðmæti á stærðargráðunni 250–300 milljarða, sem er jafnframt að gefa af sér arð til ríkisins upp á 20 milljarða plús á ári — væri í þessu dæmi há tala. Í prósentum er hún mjög lág og það er ekki óvenjulegt að miða við það í sambandi við rekstrarkostnað sjóða eða umsýslu og ávöxtun fjár að það sé vel sloppið ef rekstrarkostnaðurinn er innan við1%. Hann er brot af því í þessu tilviki, þannig að það er ekki há tala.

Svo má líka spyrja á móti: Hvers virði er traust í þessum efnum? Er ekki alveg ljóst að það er líklegt til að draga úr trausti og skapa tortryggni að fara aftur með þetta inn í fjármálaráðuneytið? Við eigum, held ég, varla innstæðu fyrir því í ljósi þess mikla vantrausts (Forseti hringir.) sem einkavæðing bankanna á sínum tíma … skapaði í ljósi sögunnar og svo hrunið sjálft.