144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Já, það er erfitt að verðleggja traust. En við vitum alveg hvaða aðstæður skapast í vantrausti. Við erum í þeim aðstæðum núna að almennt er vantraust á þeim stofnunum samfélagsins sem nutu trausts fyrir hrun, mun meira trausts. Leiðin sem valin var var sú að reyna að setja þetta inn í skýran ramma, setja skýrar leikreglur og koma á fót stofnunum með ákveðnum reglum utan um allt kerfið, til þess að gegnsæi yrði sem mest. Það virðist duga að frá hruni séu að verða liðin sjö ár, og þá má hefja leikinn að nýju. Ég held að það sé alvarlegt vanmat ríkisstjórnarinnar.