144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eftir fréttir af tugmilljarða arðgreiðslum bankanna til eigenda sinna kemur mér ekki á óvart að ríkisstjórninni liggi á að koma eignarhaldi á þeim í aðrar hendur en ríkisins. Það sem hins vegar kemur mér á óvart er óskammfeilnin í tillögum að kerfisbreytingum sem þessu fylgja. Þá erum við að sjálfsögðu komin að niðurlagningu Bankasýslu ríkisins og tillögu um að færa vald yfir bönkunum og ákvarðanir sem þeim stofnunum fylgja undir ráðherra.

Í dag var tekið út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis frumvarp um Stjórnarráð Íslands. Þar er kveðið á um afdráttarlaust vald til handa ráðherra að flytja stofnanir hvert á land sem hann vill. (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér, og vildi gjarnan heyra mat hv. þingmanns á því, hvort við séum að sjá hér enn einn vísinn að aukinni miðstýringu og ráðherravæðingu.