144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[22:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er rétt hjá hv. þingmanni. Það er mikið áhyggjuefni að ekki sé eingöngu verið að leggja til að leggja niður stofnun, eina ríkisstofnun sem sér um þessa eignaumsýslu, heldur verið að setja þá umsýslu í hendur handvalinna manna ráðherra. Auðvitað er það þannig að stundum þætti manni voða þægilegt að fá að hafa hlutina eins og maður vill, en það er ekki mjög skynsamlegt og það er beinlínis skaðlegt í lýðræðisríki.

Formaður Samfylkingarinnar fór ágætlega yfir það hér í ræðu áðan hvaða reynslu við höfum af því þegar ráðherra velur fólk til starfa í sínu umboði. Það gefur okkur fyrirheit um að góðir sjálfstæðismenn verði settir inn í þetta (Forseti hringir.) á grundvelli flokksskírteinis en ekki sérstaks hæfis.