144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á traust og trúverðugleika og ég held að við þurfum að taka okkur saman um að reyna að byggja það upp gagnvart þjóðinni eftir hrunið. Þetta frumvarp virðist ekki vera skref í þá átt. Það er eins og verið sé að snúa til baka og draga allt inn á borð ráðherra aftur þar sem æskilegt væri að hafa aðskilnað, þ.e. gagnvart umsýslu um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Ég hef ekki séð í frumvarpinu rökin fyrir því að fara út í þær aðgerðir sem þarna eru undir, þ.e. að leggja Bankasýsluna af. Mig langar að heyra viðhorf ráðherra — ráðherra, þetta er kannski forspá — hv. þingmanns varðandi það að eftirlitshlutverk ríkisins með fjármálafyrirtækjum, löggjöf um fjármálafyrirtæki og eignarhlutar ríkisins í fjármálafyrirtækjum séu þarna undir sama þaki. Ég spyr hvort það skarist ekki, hvort það sé gott stjórnsýslulega að framkvæmdarvaldið og eftirlitshlutverkið sé allt undir sama þaki. Ég spyr hvort það stangist ekki á og hvort ekki sé slæmt að þannig sé um hnúta búið.