144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:16]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er ágætt að hv. þingmaður nefndi Ríkiskaup sem eru líka þarna undir og eiga að annast sölumeðferð á hlutum ríkisins í bönkunum og bætist þá þar við. Það undirstrikar enn frekar vandkvæði á því að þetta sé allt undir þessum sama ráðherrahatti.

Nú hefur komið fram að talið sé að það sparist kannski 50 milljónir af umsýslu í kringum þetta. Við erum að tala um 250–300 milljarða sem er verðmæti eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, svo að það er nú ekki hátt hlutfall sem sparast þarna.

Er eitthvað sem hv. þingmaður sér að réttlæti þetta faglega séð eða út frá hagræðingarsjónarmiðum? Telur hann ekki að illa sé farið með dýrmætan tíma Alþingis á lokametrunum á þessu vorþingi að eyða honum í þetta mál sem engin sátt er um á milli stjórnarflokkanna?