144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram í umræðunni fyrr í dag að spurt er um rökin gegn frumvarpinu af hálfu okkar sem höfum talað gegn því. En ég spyr um rökin fyrir málinu vegna þess að verið er að breyta og fyrir breytingum verða að vera rök. Við getum nefnt mörg rök á móti, meðal annars það sem hv. þingmaður kemur hér með í andsvari, þ.e. að frumvarpið kemur seint inn í þingið og andstaða er við það af hendi annars stjórnarflokksins, hvernig sem það mun svo leysast innan þingsins. Það hafa að vísu margar yfirlýsingar borist frá Framsóknarflokknum en síðan dáið út í þinginu og mál farið í gegn. En það er alveg rétt að við erum að eyða dýrmætum tíma þingsins í að ræða mál sem bullandi ágreiningur virðist vera um.

Varðandi hagræðinguna þá skiptir alltaf máli að fara vel með peninga. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við vöndum okkur þar. En þetta er ekki það brýnasta akkúrat núna. Menn hafa líka verið að nefna eftirlitsstofnanir, þeir byrjuðu á því aftur, jafnvel eftirlitsstofnanir eins og Fjármálaeftirlitið sem er fjármagnað af bankageiranum en ekki ríkissjóði.