144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langar aðeins að ræða við hann af því við tókumst á við stjórnarmeirihlutann í fjárlögunum, m.a. um Bankasýsluna og er eftirminnilegt að það átti að fella hana úr gildi og út af fjárlögum án þess að komið væri fram nokkurt frumvarp um það. Við náðum sem betur fer að leiðrétta það að einhverju marki og tókst að minnsta kosti að koma inn fjárlagalið, þannig að hægt væri að borga út laun og annað því um líkt á eðlilegum stöðum en ekki einhvers staðar þar sem það var ekki til.

Í 13. gr. kemur fram það sem ég hef verið að velta því fyrir mér og fékk ekki svör við í dag, að lögin eiga að öðlast gildi 1. janúar 2016. Bankasýslan hefur fjárheimild fram á mitt þetta ár. Skilur þingmaðurinn þetta eins og ég? Hvað verður þá eiginlega um Bankasýsluna í þetta hálfa ár? Eigum við hugsanleg von á beiðni inn í fjáraukalög eða hvað?

Í framhaldi af því vil ég segja að mér finnst ótrúverðugt, af því að okkur er tíðrætt um trúverðugleika og að við þurfum að auka gagnsæi og annað því um líkt, þegar talað er um að ráðgjafarnefndin muni hafa aðstöðu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem ráðuneytið mun veita aðstoð við upplýsinga- og gagnaöflun, útreikninga og aðra nauðsynlega þjónustu sem tengist starfi hennar. Það eitt finnst mér til þess fallið að draga trúverðugleikann í efa. Er ráðuneytið tilbúið? Samkvæmt því sem ég les út úr frumvarpinu virðist sem það eigi að fara (Forseti hringir.) að velta fyrir sér hvernig þetta gæti verið, það sé ekki til.