144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki af kvikindisskap heldur af mikilli einlægni sem ég segi að hv. þingmaður ætti að fara eftir tillögum flokksþings síns um að Bankasýslan starfi áfram. Þá er hann búinn að uppfylla öll þessi skilyrði. Það þarf ekkert annað. Er það mikil krafa á þingmenn Framsóknarflokksins að þeir fari eftir eigin flokkssamþykkt? Ég ætla að vona að þeim sé það ekki svo þungbært að þeir þurfi að leita krókaleiða til að búa til umgjörð til að þóknast hæstv. fjármálaráðherra eða þeim sem vilja breyta og færa allt undir eitt ráðuneyti. Sá hagnaður eða sparnaður sem á að verða er ekki mikill, við erum að tala um stofnun sem er með tvo starfsmenn plús ritara og þriggja manna stjórn. Það verður ekki mikil umsýsla með þeim 200–300 milljörðum í fjármálaráðuneytinu ef það á að kosta mikið minna.

Mín orð hafa fyrst og fremst verið (Forseti hringir.) að menn eigi að hætta við þetta. Förum að gera eitthvað annað sem er miklu þarfara og gagnlegra (Forseti hringir.) og reynum þannig að vinna traust í samfélaginu.