144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. forseta hvað hann hyggist halda þessum fundi lengi áfram. Við höfum heimild til að funda til klukkan tólf og mér sýnist við dálítið runnin út á tíma með það að hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir geti lokið ræðu sinni með þeim andsvörum sem henni kunna að fylgja. Ég held að lítill bragur sé á því að slíta það í sundur þannig að hún komi til með að svara andsvörum í næstu viku, því að það eru nefndadagar á morgun, hinn og föstudaginn.

Svo vil ég spyrja hæstv. forseta varðandi nefndarvísunina, því að ég hef ekki verið við umræðuna algjörlega sleitulaust, hvort ekki hafi komið fram formleg tillaga um að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar, eins og mér skilst að skrifstofa þingsins hafi undirbúið. Ef svo er ekki geri ég það hér með að tillögu minni, enda er það efnislega eina rétta nefndin til að fjalla um það mál sem hér er lagt fram.