144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er verulega hugsi yfir þeirri stöðu sem er hér upp komin varðandi vísan mála til nefnda og er ítrekað að gerast á þessu þingi. Rammaáætlun var vísað til atvinnuveganefndar en ekki umhverfisnefndar. Náttúrupassanum til atvinnuveganefndar en ekki umhverfisnefndar. Verndarsvæði í byggð til allsherjar- og menntamálanefndar en ekki umhverfisnefndar og svo þetta mál hér sem vísað er til fjárlaganefndar en ekki efnahags- og viðskiptanefndar. Hæstv. forseti vísar til þess að eina leiðin til þess að skera úr um þetta sé með atkvæðagreiðslu í þingsal. Það má til sanns vegar færa. En er ekki líka rétt að horfa til þingskapa þegar þau kveða svo skýrt á um sem hér er raunin, auk þess sem frumvarpið um Bankasýsluna á sínum tíma fór í gegnum þáverandi efnahags- og viðskiptanefnd eða viðskiptanefnd. Mér finnst þetta vera umhugsunarefni sem við ættum að fjalla um á vettvangi þingflokksformanna og í forsætisnefnd (Forseti hringir.) til einhverrar framtíðar.