144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

aðkoma ríkisins að lausn vinnudeilna.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Staðan á vinnumarkaði er orðin mjög alvarleg og áhyggjur okkar allra af henni aukast dag frá degi. Við heyrðum nú um helgina fyrst fleygt orðrómi um lagasetningu á verkföll sem er auðvitað fráleitt svar þegar vinnumarkaðurinn er allur í uppnámi. Það er víðtæk óánægja með skiptingu þjóðarauðsins og arðs af sameiginlegum auðlindum og við þurfum einfaldlega að tileinka okkar stjórnarhætti sem gera okkur kleift að flytja inn norræna velferð en ekki horfa á eftir því að fólk flytji út.

Ég átta mig á því eftir ítarlegar umræður um þetta í þinginu undanfarnar vikur að þetta mál er orðið ríkisstjórninni mjög erfitt. Ég ætla að segja fyrir mitt leyti að ég hef engan sérstakan áhuga á því að halda áfram að hamra það járn eða gera málið enn erfiðara fyrir ríkisstjórnina. Ég held að það sé orðið mikilvægt að við tökum höndum saman og reynum að styðja hvert annað í því að ná góðri niðurstöðu í þessari erfiðu stöðu.

Það er mjög mikilvægt að horfa þá til þriggja meginþátta, í fyrsta lagi húsnæðismála. Það verður að endurreisa vaxtabæturnar, það verður að byggja upp félagslegt húsnæði, það verður að byggja upp leiguíbúðir og gera leigjendur jafnsetta þeim sem búa í eigin húsnæði. Það liggur fyrir mýgrútur af tillögum um með hvaða hætti hægt er að gera þetta og ríkisstjórnin verður að taka af skarið. Í öðru lagi þurfum við skattaaðgerðir til að jafna kjörin. Það blasir við. Í þriðja lagi þurfum við þjóðarátak um samkeppnishæft atvinnulíf. Við þurfum að opna landið og gera góðum fyrirtækjum mögulegt að vaxa og greiða samkeppnishæf laun.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er hann ekki tilbúinn til að leggjast á árarnar og gera gangskör að því að leggja með þessum hætti grunn að lausn sem getur orðið til þess að varða veginn í þeim erfiðu deilum sem nú eru á vinnumarkaði? Er ekki kominn tími á útspil (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnarinnar að þessu leyti? (Forseti hringir.) Ég get lofað stuðningi okkar í Samfylkingunni við lausnir á þessum málum.